08.07.2025
Miðlalæsisvika 2025

Miðlalæsisvika 2025

Sérstök fræðsluvika tileinkuð upplýsinga- og miðlalæsi verður haldin í þriðja sinn á Íslandi vikuna 20.-26. október.
Hatursorðræða Velferð á netinu
Clock 8:00 am
Location Ísland

Meginþema miðlalæsisvikunnar er að þessu sinni stafræn borgaravitund, enda er árið 2025 Evrópuár stafrænnar borgaravitundar í menntun. Við lifum í stafrænum heimi þar sem stór hluti daglegs lífs fer fram á netinu – við vinnum, lærum, höldum sambandi við fólk og tökum þátt í samfélagslegri umræðu í gegnum stafræna miðla. Til að geta nýtt tæknina á öruggan og ábyrgan hátt þurfum við að tileinka okkur stafræna borgaravitund. Stafræn borgaravitund snýst um að skilja réttindi og skyldur í stafrænum heimi, geta metið áreiðanleika upplýsinga, sýna tillitssemi í samskiptum og vernda eigin persónuupplýsingar. Hún hvetur okkur til þess að vera ekki aðeins neytendur heldur virkir og ábyrgir þátttakendur í stafrænu samfélagi, þar sem gagnrýnin og skapandi hugsun ræður för.

Miðlæg miðstöð um félagslegt netöryggi opnuð og vitundarátakinu Líttupp ýtt úr vör

Í ár hóf Netvís – Netöryggismiðstöð Íslands formlega starfsemi og tók þar með hlutverki SAFT sem íslenskt Safer Internet Centre. Í tilefni þess var nýr vefur, netvis.is, opnaður en þar má finna bæði nýtt og eldra fræðsluefni fyrir börn og ungmenni, foreldra og fagfólk. Þá verður vitundarvakningarherferðinni Líttupp hleypt af stokkunum í dag, en hún hvetur fólk til að líta oftar upp úr símanum og vera meira til staðar í raunveruleikanum. Herferðin verður m.a. sýnd í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum ásamt því að vera birt í prentmiðlum og spiluð í úvarpi. Samhliða herferðinni verður fjölbreyttum varningi henni tengdri dreift til að minna enn frekar á mikilvægan boðskap hennar.

Opið málþing í Grósku: Líttupp – Vertu með í að skapa heilbrigðara samfélag á netinu!

Miðlalæsisvikan nær svo hámarki með opnu málþingi í tilefni Evrópuársins, sem haldið verður í Grósku, Reykjavík, miðvikudaginn 22. október, frá kl. 12:30-16:30. Yfirskrift málþingsins er Líttupp – Vertu með í að skapa heilbrigðara samfélag á netinu! Málþingið er opið öllum og þátttakendum að kostnaðarlausu. Skráning á málþingið fer fram hér en takmarkað sætaframboð er í boði.

Netvís – Netöryggis miðstöð Íslands, Samráðshópur um Evrópuár stafrænnar borgaravitundar og Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi (TUMI) standa að málþinginu með styrk frá Mennta- og barnamálaráðuneytinu.