Hvað er Netvís?
Netvís er miðstöð um félagslegt netöryggi og miðlalæsi
Hlutverk okkar er að hvetja með markvissri fræðslu, vitundarátökum og ýmiskonar þjónustu til betri umgengni við tækni og miðla. Markmið okkar er að efla hugtakaskilning, vitund og valdeflingu almennings.
Við viljum stuðla að félagslegri sjálfbærni í stafrænum heimi og virða mannréttindi barna í stafrænu umhverfi, eins og þeim er lýst í almennum athugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, nr. 25. Enn fremur að styðja við stefnu Evrópusambandsins BIK+ og styðja við innleiðingu á Digital Services Act, þegar sú löggjöf tekur gildi á Íslandi.
Mikilvægur liður í að uppfylla skyldur ríkisins samkvæmt Barnasáttmálanum, sbr. lög nr. 19/2013 er að tryggja jafnt aðgengi barna að fræðslu og gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda börn gegn ofbeldi og misbeitingu á neti.
Samstarfsaðilar verkefnisins mynda stýrihóp ásamt fulltrúum ráðuneyta. Jafnframt er starfandi ráðgjafaráð Netvís sem samanstendur af breiðum hópi hagsmunaaðila.
