Fræðsla

Netvís býður upp á faglega fræðslu sem hentar börnum, ungmennum, foreldrum, fagfólki og eldri borgurum

Fræðsla Netvís snýst um félagslegt netöryggi og miðlalæsi. Markmiðið er að auka vitund, efla hugtakaskilning og valdefla notendur til þess að nota netið og mismunandi miðla á jákvæðan, öruggan og uppbyggilegan hátt. Við bjóðum upp á fræðslu fyrir börn, ungmenni, foreldra, fagfólk og eldri borgara og aðlögum fræðsluna eftir hópum.

Yfir 23.000 þátttakendur í 500 erindum um allt land síðustu tvö ár.

Bóka
Bóka
Bóka
Bóka
Bóka
Bóka

Netumferðarskólinn

4. – 7. bekkur  

40-45 mín  

Netumferðarskólinn er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í netöryggi og styrkt af Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Fræðsluerindið er blanda af fyrirlestri, hópverkefni og samtali við börnin þar sem áherslan er á vitundarvakningu, hugtakaskilning og valdeflingu. Fjölmiðlanefnd og Persónuvernd fengu það hlutverk að vinna fræðsluefni um upplýsinga-, miðla- og tæknilæsiásamt því að auka þekkingu á persónuvernd í meðferð upplýsinga fyrir 4.-7. bekk. Við mælum með foreldrafræðslu samhliða fræðslu til nemenda.
Lýðheilsusjóður styrkti útgáfu af Netumferðarskólanum fyrir 1.-3. bekk.

Algóritminn sem elur mig upp

8.-10. bekkur + Framhaldsskóli   

50-60 mín

Hvers virði eru upplýsingarnar um okkur og hvað greiðum við fyrir aðgang okkar að samfélagsmiðlum? Í erindinu er áhersla lögð á mikilvægi þess að vera læs á upplýsingar og miðla í nútíma samfélagi. Fjölmiðlalæsi, auglýsingalæsi, gervigreindarlæsi, myndlæsi o.fl. Fjallað er um hvernig algóritmar samfélagsmiðla virka og hvaða áhrif tæknin hefur á daglegt líf og líðan ungs fólks, heilbrigð samskipti á netinu, áreitni frá ókunnugum og ábyrga deilingu mynda. Markmið fræðslunnar er að valdefla nemendur til að nýta tæknina á eigin forsendum á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Erindið byggir á niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands um börn og netmiðla.

Stolin athygli leitar eiganda síns

Foreldrar

60 mín + umræður

Hvað segja rannsóknir okkur um stöðuna á miðlanotkun barna á Íslandi í dag? Stolin athygli leitar eiganda síns tekur fyrir atriði í stafrænu umhverfi sem ber að varast auk þess að veita góð ráð varðandi notkun barna á skjátækjum og samfélagsmiðlum. Farið verður yfir hvernig tæki og öpp eru hönnuð til að grípa og stela athygli okkar. Hvað getum við gert til að taka stjórnina í okkar hendur? Viðfangsefni erindisins eru m.a. skjátími barna, aldurstakmörk á samfélagsmiðlum, samskipti á netinu, áreitni og deiling mynda. Farið verður yfir heilræði til foreldra, verkfærakistu með gagnlegu stuðningsefni og gerð fjölskyldusáttmála. Erindið byggir á niðurstöðum rannsóknar Fjölmiðlanefndar í samstarfi við Menntavísindastofnun Háskóla Íslands og Maskínu. 

Gervigreindarlæsi

14 – 20 ára

50 mín

Markmiðið er að efla vitund, skilning og valdefla notendur þegar kemur að gervigreind. Áhersla er lögð á örugga og ábyrga notkun gervigreindar, og þátttakendur fá tækifæri til að skoða myndir og myndbönd til að efla hæfni sína til að greina hvað er raunverulegt efni og hvað ekki. Þá er einnig fjallað um gagnrýna hugsun við notkun gervigreindarmállíkana, eins og ChatGPTClaude og Gemini, og spurningum um söfnun viðkvæmra persónuupplýsinga er velt upp. Við notkun gervigreindar er mikilvægt að átta sig á að þar liggja mörk sem nauðsynlegt er að við þekkjum — notkun okkar má aldrei brjóta á réttindum annarra. 

Rauðu flöggin 

Fullorðnir og eldra fólk

60 mín

Í þessu fræðsluerindi kynnast þátttakendur helstu áskorunum og því sem ber að varast í stafrænu umhverfi, svokölluðum „rauðum flöggum“ á netinu. Erindið fjallar meðal annars um netsvik, þar á meðal ástarsvik, netveiðar og fjársvik á netinu, auk falsfrétta og upplýsingaóreiðu sem birtast okkur á stafrænum miðlum. Einnig er fjallað um áhrif og virkni algóritma samfélagsmiðla og gervigreind og þær áskoranir sem henni tengjast í upplýsingamiðlun og dreifingu efnis. Markmið fræðslunnar er að efla upplýsinga- og miðlalæsi þátttakenda og valdefla þá sem örugga, gagnrýna og ábyrga notendur í síbreytilegu stafrænu umhverfi.
Sérstök útgáfa af erindinu er til fyrir eldri borgara 

Hvað er málið með þessar kökur?

15 ára og eldri 

45 min

Hvað er það sem við erum að samþykkja þegar við samþykkjum allar vefkökur? Er hægt að hafna þeim öllum? Í erindinu er farið yfir mismunandi tegundir af kökum á netinu til þess að þátttakendur öðlist þekkingu á eðli, virkni og nauðsyn hverrar tegundar fyrir sig. Hvað getum við gert til að taka betur stjórn og vernda upplýsingarnar um okkur á netinu? Einnig verður farið yfir stillingar í tækjum og þær upplýsingar sem öpp biðja um aðgang að. Hvað erum við að samþykkja í þessum löngu skilmálum sem við nennum sjaldan ef einhvern tímann að lesa?

Upplýsingar um fyrirlesara:

Skúli Bragi Geirdal 

Skúli Bragi Geirdal er reyndur fyrirlesari og sérfræðingur í miðlalæsi og félagslegu netöryggi. Hann er menntaður fjölmiðlafræðingur með fjölbreyttan bakgrunn m.a. í fjölmiðlum, knattspyrnuþjálfun og félagsstarfi ungmenna. Síðustu ár hefur hann ferðast um landið með fræðsluerindi fyrir börn, ungmenni, foreldra, kennara og eldri borgara við góðan orðstýr.
Nokkur dæmi um vinnuhópa og stjórnir:
  • Vinnuhópur Forseta Íslands sem nefnist Símafriður – um áhrif snjalltækja- og samfélagsmiðla á líf og líðan barna og ungmenna.
  • Vinnuhópur mennta- og barnamálaráðherra um mótun reglna um viðeigandi og örugga farsímanotkun í grunnskólum.
  • Tengiliðahópur Þjóðaröryggisráðs um rýni á mögulegri miðlun erlendra ríkja eða aðila þeim tengdum á „fölskum fréttum“, áróðri, lygum og undirróðri hér á landi sem miðar að því að grafa undan samfélagslegu trausti og lýðræðislegum gildum.
  • Fulltrúi Íslands í Nordic MIL Survey Expert Group – Sem vinnur að samnorrænni rannsókn á miðlalæsi.
  • Stjórn Ungmennafélags Íslands

Haukur Brynjarsson 

Haukur er fjölmiðlafræðingur að mennt og sérfræðingur á sviði upplýsinga- og miðlalæsis hjá Netvís – Netöryggismiðstöðvar Íslands. Haukur vinnur að fræðslu og rannsóknum sem efla þekkingu og vitund almennings um örugga þátttöku í stafrænu samfélagi, með áherslu á upplýsinga- og miðlalæsi, stafrænt öryggi og vernd viðkvæmra hópa.
Haukur hefur reynslu af því að flytja forvarna- og fræðsluerindi fyrir börn, ungmenni, foreldra, fagfólk og eldri borgara.
Hann hefur lokið þjálfun frá Swedish Psychological Defence Agency í borgaralegum vörnum gegn áhrifum upplýsingaóreiðu.

 

Vilt þú fá nýjustu fréttir og fræðsluefni?

Skráðu þig á póstlistann okkar

Stjörnumerktar* línur er nauðsynlegt að fylla út

Fyrirspurn um fræðslu

Fylltu út formið með upplýsingum um þig og við munum hafa samband við þig við fyrsta tækifæri.

Stjörnumerktar* línur er nauðsynlegt að fylla út